koushik-chowdavarapu-Zjd6NvWUf5k-unsplash.jpeg

Ávarp

Bjarni Þór Þórólfsson

Traustur grunnur og nútímaáherslur

Nýbyggingarverkefni Búseta vekja jafnan athygli fyrir hönnun, vandað efnisval og ekki síst áhugaverðar staðsetningar. Í rekstri félagsins er sífellt aukin áhersla á umhverfisvitund og sjálfbærni. Áhugi félagsmanna hefur því ekki látið á sér standa þegar sala fer fram.
Á árinu 2020 voru 78 íbúðir afhentar nýjum íbúum á Keilugranda 1 – 11 og á árinu 2021 fara fram afhendingar á íbúðum við Árskóga í Mjódd og við Beimabryggju í Bryggjuhverfi Reykjavíkur.

Fasteignaverkefni sem vekja athygli

Á síðustu árum hefur Búseti staðið fyrir fasteignaverkefnum sem hafa vakið athygli. Síðasta sumar afhenti félagið 78 íbúðir við Keilugranda í Vesturbæ Reykjavíkur og nú í sumar verða afhentar 72 íbúðir við Árskóga 5 – 7 í Mjódd. Félagið mun afhenda 26 íbúðir við Beimabryggju 42 í Bryggjuhverfi Reykjavíkur í haust. Búseti hefur í gegnum árin reynst fyrstu kaupendum farsæll kostur og í byggingarverkefnum félagsins við Keilugranda og Árskóga er að finna minni íbúðir á hagkvæmum kjörum sem höfða til þessa hóps.

Félagið leggur sig fram við að mæta þörfum ungs fólks og fyrstu kaupenda húsnæðis


Félagsmenn Búseta kunna ekki aðeins að meta fallegar og vel staðsettar íbúðir heldur einnig kostina sem felast í að tilheyra Búseta. Á síðasta ári voru í heild seldir hjá félaginu 139 búseturéttir, af þeim 51 í nýjum íbúðum og 88 í eldri íbúðum. Búseti leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Fjölbreytta flóru fasteigna er að finna á vegum félagsins eftir hátt í fjörtíu ára starfsemi. Búseti leikur mikilvægt hlutverk með því bjóða upp á þriðju leiðina þegar kemur að kostum á fasteignamarkaði, leið sem felur í sér raunverulegt húsnæðisöryggi og langtímahugsun.

Verkefni Búseta í nýjasta hluta Bryggjuhverfis Reykjavíkur er hluti af metnaðarfullu borgarhverfi þar sem áður var athafnasvæði Björgunar. Á þessum stað er að myndast grunnur að líflegu og mannvænu borgarhverfi í góðum tengslum við önnur hverfi og borgarhluta. Til suðurs er að finna Ártúnshöfðann sem mun á næstunni umbreytast úr iðnaðarhverfi í íbúðahverfi. Til norðurs er nálægð við hafið og fjöruna en við hönnun hverfisins liggja strandir og bryggjur til grundvallar. Áætlanir Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir blómlegri verslun og þjónustu innan hverfisins. Íbúar hverfisins munu njóta góðs af nálægð við eina af aðalstöðvum Borgarlínunnar við Krossmýrartorg. Hús Búseta við Beimabryggju samanstendur af alls 26 íbúðum sem endurspegla fjölbreytileika hverfisins. Mikill metnaður er lagður í hönnun húss og lóðar en lagt er upp með að húsið falli vel að sjálfbæru hverfi.

Góðir stjórnarhættir og sjálfbærni

Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og eru sjálfbærni og umhverfisvitund mikilvægir þættir í starfsemi Búseta. Til að varpa ljósi á þennan þátt í starfsemi félagsins var í samstarfi við fyrirtækið Reitun lagt mat á stöðu Búseta hvað varðar umhverfis- félags -og stjórnarhætti (UFS). Niðurstaða UFS-úttektar er meðal þess sem horft er til við skuldabréfaútboð. Búseti hlaut 74 stig í mati Reitunar sem er vel fyrir ofan meðaltal (meðaltal er 63 stig) í samanburði við aðra útgefendur skuldabréfa.

Líkt og árið á undan hækkaði fasteignaverð talsvert á árinu 2020. Bókfært virði eignasafnsins eykst því, sem leiðir til þess að aukinn hagnaður birtist í bókum félagsins eins og árið á undan. Sem fyrr er rétt að minna á að þessi bókfærði hagnaður er fyrst og fremst tölur á blaði. Vel var hlúð að eignasafni Búseta á árinu 2020 og stóð félagið fyrir talsverðum endurbótum og viðhaldi á árinu. Til þess rekur Búseti vel skipaða deild eignaumsjónar og á gott samstarf við fjölbreyttan hóp verktaka. Hjá Búseta er auðlindum ráðstafað með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi um leið og lögð er áhersla á samlegðaráhrif við rekstur og byggingu fasteigna.

Búseti leikur mikilvægt hlutverk með því bjóða upp á þriðju leiðina þegar kemur að kostum á fasteignamarkaði. Leið sem felur í sér raunverulegt húsnæðisöryggi og langtímahugsun.

Styrkar stoðir

Hjá Búseta er unnið af kostgæfni að stefnu og markmiðum félagsins um leið og varfærni er gætt. Einn helsti kostur Búseta er að bjóða félagsmönnum sínum upp á stöðugleika og öryggi á síbreytilegum fasteignamarkaði. Eins og fyrri ár hlutu Búseti og Leigufélag Búseta viðurkenningar frá CreditInfo og Viðskiptablaðinu á árinu 2020. Félagið stendur á traustum grunni og hefur á liðnum árum vaxið og dafnað um leið og stoðir þess hafa styrkst. Þetta byggir ekki síst á öflugri liðsheild og traustum mannauði og það ber að þakka.

Bjarni Þór Þórólfsson
Framkvæmdastjóri